Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 585  —  389. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um áhrif vaxtahækkana á innlendan landbúnað.


     1.      Hefur ráðherra áhyggjur af áhrifum hárra vaxta á efnahagsumhverfi íslensks landbúnaðar og stöðu bænda?
    Ráðherra telur að verðbólga og háir vextir sem af henni leiða séu afar neikvæðir fyrir almenning og atvinnulíf, þ.m.t. bændur.

     2.      Hver eru að mati ráðherra áhrif þess á innlendan landbúnað að vextir á Íslandi hafa um langa hríð verið mjög háir og umtalsvert hærri en á evrusvæðinu, en formaður Bændasamtakanna hefur nefnt að vaxtahækkanir hafi aukið kostnað bænda um 5,5 milljarða kr. og að fjármagnskostnaður sé verulega íþyngjandi þáttur fyrir greinina?
    Tekið er undir það sjónarmið að fjármagnskostnaður er sannarlega verulega íþyngjandi fyrir innlendan landbúnað sem og aðra sem eru skuldsettir við þessar aðstæður. Ljóst er að margir bændur eru í erfiðri stöðu og af þeim sökum samþykkti ríkisstjórnin þann 20. október sl. að koma á fót starfshópi ráðuneytisstjóra þriggja ráðuneyta; matvælaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis. Hópurinn mun leggja mat á þá stöðu sem upp er komin í landbúnaði í kjölfar endurtekinna hækkana á stýrivöxtum og verðhækkana á aðföngum. Hópurinn er að störfum.
    Höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað hratt síðustu misseri og þannig rýrt eiginfjárstöðu bænda eins og víðar í samfélaginu. Staða landbúnaðar er þó sérlega erfið að því leyti að rekstur búa er nátengdur heimilum bænda og hækkanir við fjármagnskostnað og aðfangaverð hafa haft íþyngjandi áhrif. Rekstur í landbúnaði er því orðinn þungur hjá mörgum framleiðendum. Starfshópurinn mun draga saman nýjustu gögn um stöðuna og þróun síðustu missera.
    Í framhaldinu verða lagðar fram tillögur með hliðsjón af þessum gögnum og jafnframt leiða leitað til að auðvelda kynslóðaskipti og nýliðun í landbúnaði. Hópurinn mun hafa samráð við Byggðastofnun og önnur fjármálafyrirtæki auk hagsmunaaðila í landbúnaði.

     3.      Telur ráðherra að opinber stuðningur stjórnvalda sé samkeppnishæfur við þann stuðning sem bændur í aðildarríkjum Evrópusambandsins njóta nú í kjölfar þess að verð á aðföngum hefur hækkað, sbr. viðbótarstuðningspakka Evrópusambandsins sem samþykktur var í júní sl. til bænda í 22 aðildarríkjum og nemur 330 millj. evra, eða um 48 milljörðum kr.?
    Útgjöld ESB til landbúnaðarmála á þessu ári nema um 57,3 milljörðum evra eða u.þ.b. 8.665 milljörðum íslenskra króna. Stuðningspakki ESB upp á 330 milljónir evra er tæplega 0,6% af stuðningi sem fyrir er. Til samanburðar má geta þess að árið 2022 fékk innlendur landbúnaður sérstakan stuðning sem nam tæpum 3,2 milljörðum kr., annars vegar 700 millj. kr. vegna mikilla áburðarhækkana og hins vegar 2.460 millj. kr. vegna aðfangahækkana, þ.e. svonefndar sprettgreiðslur. Stuðningur við bændur samkvæmt búvörusamningum var á árinu 15,5 milljarðar kr. Viðbótarstuðningur íslenskra stjórnvalda á síðasta ári var því 20,4% af þeim stuðningi sem fyrir var, samanborið við 0,6% í ESB samkvæmt dæminu sem nefnt er að ofan. Þá má geta þess líka að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 sem liggur fyrir Alþingi er tillaga um 198 millj. kr. viðbótarstuðning til eflingar kornræktar. Sú fjárhæð er rúmlega 1,1% af stuðningi við bændur samkvæmt búvörusamningum árið 2023. Þá er áætlað að allt að tveimur milljörðum kr. verði bætt við stuðning í landbúnaði á næstu árum til eflingar kornræktar hér á landi samkvæmt fyrirliggjandi fjármálaáætlun.